Öryggisreglur Norðuráls

Norðurál hefur öryggi og heilbrigði í fyrirrúmi. Starfsfólk þekki áhættur og örugg vinnubrögð og að ekkert verk eigi að vinna við ótryggar aðstæður. Áhersla er lögð á virka þátttöku starfsfólks í forvörnum og umbótum. Norðurál uppfyllir lög og reglur um öryggis- og heilbrigðismál.

Öryggis- og heilbrigðismarkmið Norðuráls

  • Öruggur vinnustaður
  • Heilsuvernd starfsfólks
  • Þátttaka starfsfólks í forvörnum

 

Notkun persónuhlífa

Gerð er krafa um notkun öryggishjálms, öryggisgleraugna og öryggisskó. Þá eru ýmis svæði sem gera ríkari kröfur um öryggisbúnað. Áður en farið er inn á svæði skal kynna sér hvaða öryggisbúnaðar er krafist, merkingar eru til staðar við inngang allra svæða sem gerð er krafa á ríkari kröfur um öryggisbúnað.

Akstur á athafnasvæðinu

Hámarkshraði: 10 km/klst innandyra, 20 km/klst utandyra.

Hámarkshraði deiglubíla og lyftara með farg á göflum er 6 km/klst.

Ávallt skal ná augnsambandi og fylgja því eftir með handahreyfingu.

Gangandi umferð

Ávallt skal ná augnsambandi og fylgja því eftir með handahreyfingu. Gangið alltaf eftir merktum gönguleiðum, bæði innan og utandyra og gangið aldrei um akstursdyr – Við allar akstursdyr eru hurðar sem ætlaðar eru gangandi umferð.

Þegar gengið er á milli svæða í kerskála skal nota svokallaða ELAS ganga sem staðsettir eru á bak við kerin í hverjum skála.

Á þeim stöðum þar sem grænar gönguleiðir er að finna gildir undanþága fyrir notkun persónuhlífa. Grænar gönguleiðir er að finna:

  • Frá Jökulheimum að lager og skrifstofu skautsmiðju.
  • Frá baðhúsi að Visku / Fróða, að mötuneyti og að skrifstofum kerskála

Bráðinn málmur

Allt starfsfólk Norðuráls sem vinnur með bráðin málm skal klæðast öryggisfatnaði sem öryggisdeild hefur valið og talið hæfan til þeirra starfa.

  • Raki og bleyta geta myndað mikla sprengju við bráðinn málm. Því eru drykkir og drykkjarföng bönnuð á framleiðslusvæði.
  • Ávallt skal forhita öll verkfæri sem komist gætu í snertingu við bráðinn málm.

Vinna í hæð

Allt starfsfólk sem vinnur í umtalsverðri hæð skal þjálfað samkvæmt Öryggis- og heilbrigðisstefnu Norðuráls.

Girða skal af svæðið fyrir neðan þar sem vinna í hæð fer fram.

Starfsfólk sem vinnur úr færanlegum vinnupöllum (körfubílum, vinnulyftum o.s.frv.) verður alltaf að nota fallvarnarbúnað.

Meðhöndlun hífibúnaðar

Fyrir notkun á hífibúnaði skal ganga úr skugga um að hífigeta búnaðar sé hærri en þyngd þeirrar byrðar sem á að hífa.

Yfirfara skal allan hífibúnað fyrir notkun til að ganga úr skugga um að búnaðurinn sé viðurkenndur, heill og hafi gilda skoðun.

Læsa – Merkja – Prófa

Læsa – Merkja – Prófa er ferli sem veitir starfsfólki vernd gegn óvæntri ræsingu eða orkulosun meðan á þjónustu eða viðhaldi búnaðar stendur.

  • Eigandi búnaðar ber ábyrgð á því að læsingarferlar séu uppfærðir og í lag
  • Yfirmaður skal sjá til þess að starfsmaður hans fái viðeigandi þjálfun
  • Starfsmaður ber ábyrgð á læsingu búnaðar sem hann starfar við

Lokuð rými

Sækja þarf um sérstakt inngönguleyfi til að vinna í rými sem er skilgreint sem „lokað rými“. Áður en farið er inn þarf að kynna sér áhættugreiningar rýmisins, en einnig þarf að vera öryggisvarsla fyrir utan rýmið meðan unnið er í því.

Reglur um notkun viðvörunarljósa

Fjórar tegundir viðvörunarljósa eru í notkun hjá Norðuráli.

Blá blikkandi ljós merkja að fólk sé við vinnu ofan á kerum. Blá stöðug ljós merkja að lyftari við hleðslu og afhleðslu gáma bakkar. Rauð blikkandi ljós merkja flutning á bráðnum málmi. Gul blikkandi ljós merkja vinnu viðhaldsmanna á afmörkuðu svæði.

Umhverfishegðun og húshald

Við höldum umhverfi okkar hreinu og snyrtilegu með því að ganga frá eftir okkur jafn óðum.

  • Flokkum sorp til endurvinnslu í sérstök ílát.
  • Losun efna í umhverfið bönnuð
    • Ef mikið magn +-100 lítrar berast í niðurföll skal tilkynna bráðamengun samstundis til Neyðarstjórnar.
  • Öllum efnum skal fylgja öryggisblað (MSDS) þar sem fram koma allar upplýsingar um efni, hvað skal varast o.s.frv.

Tilkynningar er varða öryggismál

Öll óhöpp, slys og tjón ber að tilkynna í ábendingagrunn Norðuráls eða til næsta yfirmanns. Við trúum að öll slys geri boð á undan sér og því viljum við einnig fá inn ábendingar um næstum því slys, öryggisábendingar eða umhverfisábendingar. Unnið er úr öllum ábendingum og gerðar á þeim úrbætur.

Þekking, færni og heimildir

Vinnuleiðbeiningar

Öll störf Norðuráls þarf að vinna samkvæmt fyrirframákveðnu fyrirkomulagi sem búið er að áhættugreina. Til þess notum við vinnuleiðbeiningar. Allar vinnuleiðbeiningar má nálgast í gæðahandbók, á innra neti Norðuráls eða hjá næsta yfirmanni.

Áhættugreiningar og áhættuskimun

Þegar ekki eru til vinnuleiðbeiningar fyrir verk skal áhættugreina það áður en vinna hefst.

Áður en öll verk hefjast ber að áhættuskima verkið. Fara í gegnum áhættuþætti, stoppa og takmarka hættuna áður en haldið er af stað áfram þegar við á.

Sérstök leyfi til vinnu

Þegar þörf er á sérstöku leyfi til vinnu er leyfið eingöngu gefið út til viðkomandi verks.

Logaleyfi

Sækja þarf um logaleyfi fyrir öll verk sem fela í sér opinn eld eða verk sem framkalla hita- og/eða neistamyndun. Þetta felur í sér en takmarkast ekki við eftirfarandi: Logsuða, logskurður, rafsuða, slípun, lagning tjörupappa o.s.frv. Logaleyfi eru gefin út af umsjónarmanni viðkomandi svæðis.

Graftrarleyfi

Sækja þarf um leyfi fyrir allan gröft á athafnasvæðinu til að koma í veg fyrir tjón, til dæmis á strengjum og lögnum sem gætu legið þar sem gröftur fer fram. Graftrarleyfi eru gefin út af umsjónarmanni viðkomandi svæðis í samráði við umsjónarmann bygginga og svæðis.

Verkleyfi (verktakar)

Óheimilt er að hefja verk án þess að fyrir liggi verkleyfi umsjónarmanns viðkomandi svæðis. Umsjónarmaður svæðisins samþykkir verkleyfið í byrjun hvers dags sem verkið er unnið.

Akstursleyfi

Einkabílar eða tæki sem ekki eru í eigu Norðuráls eru óheimil innan athafnasvæðisins nema með akstursleyfi Norðuráls. Óheimilt er að fara inn á svæði á ökutæki án leyfis yfirmanns þess svæðis.

Gestir og verktakar

Gestir eða aðrir sem koma inn á svæði Norðuráls sem eru:

  • Ávallt í fylgd innan svæðis
  • Vinna enga líkamlega vinnu innan svæðis
  • Fá gestakynningu
  • Vera klædd í öryggishjálm, öryggisgleraugu og öryggisslopp eða öryggisfatnaði eftir því sem við á.

 

Starfsfólk verktaka Norðuráls þarf áður en það hefur störf:

  • Að vera skráð inn í kerfi Norðuráls
  • Sitja öryggisnámskeið og samþykkja öryggisreglur
  • Vera klætt samkvæmt öryggisreglum Norðuráls
  • Samþykkja rafræna vöktun
  • Stimpla sig inn í öll verk og vera með verkleyfi til vinnu við viðkomandi verk.

 

Gæðaskjal GSK-3609
Útgefið: 5/24/2021 3.0