Kerskálar

 

Framleiðsla á áli í álverinu á Grundartanga fer fram í fjórum kerskálum. Í kerskálunum eru samtals 520 ker með forbökuðum kolaskautum. Kerin eru lokuð og tengd reykhreinsivirki sem hreinsar útblástur frá þeim. Í kerskálunum eru þjónustukranar sem þjóna kerunum. Kranarnir eru notaðir til að skipta um skaut, við áltöku og við áfyllingu álflúoríðs. Lokað þéttflæðikerfi flytur súrálið frá geymslusílói við höfnina til keranna í kerskálunum.  Í kerunum eru brjótar sem brjóta gat á raflausnarskurnina svo að matarar, sem eru notaðir til að bæta bæði súráli og álflúoríði í kerin, komi efnunum frá sér. Rafmagnið sem fer um raflausnina í kerunum veldur því að súrál klofnar í súrefni og hreint ál. Kolaskaut í kerunum eyða súrefninu með bruna. Ferlinu í kerunum er stjórnað með VAW ELAS tölvustýrðu stjórnkerfi.

 

 

Ál og samgöngur

Um fjórðungur álnotkunar heimsins í flutninga- og farartækjaiðnaði.

40 milljónir bíla eru framleiddar á ár hvert. Undanfarin ár hefur vaxandi áhersla verið lögð á að létta þá og draga úr orkunotkun og mengun. Þar eru yfirburðir álsins miklir. Vegna lítillar eðlisþyngdar áls verða farartæki mun léttari en ella og því stuðlar notkun áls að minni útblæstri koldíoxíðs og þar með minni áhrifum gróðurhúsalofttegunda.

Þá er ál einnig vinsælt í framleiðslu flugvéla. Vaxtarmöguleikarnir eru eigi að síður minni þar enda aðeins framleiddar um þúsund flugvélar í heiminum á ári.

Notkun áls í lestum fer stöðugt vaxandi og ál er einnig notað í reiðhjól og fley af ýmsu tagi. Ál gegnir mikilvægu hlutverki í skipasmiði enda færist þyngdarpunktur skipa neðar þegar ál er notað í yfirbyggingu og þar með verða skipin stöðugri.